Ævintýri í Guatemala

 

 

Já til Guatemala var haldið með nokkurm vinum úr skólanum núna i janúar, ég vaknaði eldsnemma og já reyndar nokkrum sinnum um nóttina dagin sem af stað skyldi haldið. Svaf reyndar næstum yfir mig en var komin út í leigumbíl rétt fyrir klukkan fimm að morgni og tannburstaði mig bara úti á flugvelli.

 

Svo var fyrst flogið frá Austin til Houston þar sem ég keypti dáltlar birgðir af orkumiklu súkkulaði, svona ef ske kynni að ég fyndi nú engan mat sem ég þyrði að borða á áfangastað, svona til öryggis... En svo var flogið áfram til Guatemala frá Houston og komið til fallegs ferðamannabæjar, Antigua, sem er rétt hjá Guatemalaborg, upp úr hádeginu.

                                                  

Þar voru fyrstu sölukonurnar sem ég hitti vinkonurnar hérna til hliðar, sú sem er vinstra  megin heitir Karólína og hún gerði nú bara grín að mér þegar ég reyndi að gera mig skiljanlega á spænskunni minn og svaraði bara á ensku, býsna klár.

 

 

 

 

 

 

 

Og það var aftur vaknað snemma morguninn eftir, ég var komin út í bíl rétt fyrir klukkan fimm, og þá var nú gott að hafa orkuríkt súkkulaði því að út á flugvöll var haldið og flogið í lítilli rellu yfir til Tikal, aðrir fengu ekki morgunmat fyrr en komið var til Tikal um 11 leytið þannig að ég þóttist nú bara nokkuð góð.

 

 

Á myndinn hérna við hliðina eru ferðafélagarnir, ja nema Todd og Melissa en ég sá þau reyndar ekki nema rétt í svipinn og fyrir algjöra tilviljun á rútustöð. En hérna við hliðina eru frá vinstri talið, Aaron, Mike, Mary, Pablo, Dave, Teri, Caroline og Matt.

 

 

Dagarnir í Tikal voru hápunktur ferðarinnar held ég, að

hlaupa upp og niður píramídanna, leita að öpum í trjánum,

og njóta þess að virða fyrir sér þessar mikilfenglegu gömlu

byggingar sem búa yfir svo mikilli sögu. Sögu sem týndist

í frumskóginum í aldir en er hvíslað að manni þegar hlustað

er vandlega.

 

 

 

 

Ég var alveg dáleidd af Tikal, svo hrifin af andrúmsloftinu þannig að eftir að horfa á regnbogann hér hægra megin upp á píramída rétt fyrir sólarlag, já og fara í nokkur handahlaup. Þá ákvað ég að ég yrði nú að gera eins og Fríða systir sagði að ég ætti að gera og vakna nógu snemma morguninn eftir til að ná sólarupprásinni í Tikal.

 

 

Og það var alveg sama þó svo aðrir ferðalangar væru æstir í að komast í sjóinn á Belize, ég skyldi sko sjá sólarupprásina, og stillti vekjaraklukkuna mína á korter í fimm að morgni.

 

 

 

 

 

Ég náði fyrstu rútu uppeftir, hljóp með stóra bakpokann minn á bakinu eftir stígunum villtist nú aðeins en komst loksins, eftir tuttugu mínútna hlaup, móð og másandi upp tröppunar á hæsta píramídannum.

 

 

Og himininn var aðeins að byrja að roðna, púff ég rétt náði þangað....

 

 

 

 

 

 

 

 

En svo komu skýin....

Og ég sá sólina ekki aftur fyrr en tveimur tímum seinna.

 

En það var nú sossum allt í lagi líka, ég sat bara drjúga stund þarna uppi, skrifaði á póstkort og borðaði soldið meira af súkkulaðinu mínu því ég hafði náttúrulega ekki gefið mér neinn tíma í morgunmat.

Svo rölti ég nú bara aðeins um þá staði sem ég hafði ekki komið á daginn eftir og naut þess að vera þarna upp á eigin spítur og þurfa að treysta á þau fá orð sem ég kann í spænsku, já og svo handapat...

 

 

Ég tók svo rútu niður til Flores um hádegið og rölti um rykugar götur þar í nokkurn tíma. Fann hótelið sem ég og hún Teri höfðum talað um að hittast á tókst eftir dáldið handapat að fá leyfi til að skilja bakpokann minn eftir, þó svo konugreyin skyldu náttúrulega ekki röflið í mér því að ég var að reyna að segja þeim að Teri hefði komið um morguninn til að taka frá herbergi, en hún hafði í rauninni farið á hótelið við hliðina og því von að þær skyldu mig ekki.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

En ævintýrin í Flores voru aldeilis ekki búin því ég fann hana Teri, rétt um það bil sem hún var búin að komast á snoðir um hvar væri kannski hægt að leigja mótorhjól... Fólkið þar hafði að vísu aldrei leigt mótorhjólin sín en þau létu samt til leiðast. Og við brunuðum af stað, það varð nú reyndar stutt ferð en hún tók samt dáldinn tíma því að hjólið tók upp á því að kæfa alltaf á sér. Og þá brostu og hlógu nú Guatemala búarnir að okkur, þar sem við bisuðum við að starta hjólinu alltaf aftur og aftur.

 

 

 

Eftir þá frægðarför fórum við nú bara á markaðinn til að fá okkur eitthvað að borða, ég borðaði alveg hreint ljómandi kjúkling með hrísgrjónum á litlum stað, sem var eiginlega líka stofa og eldhús heimili þess sem seldi matinn. Svo fundum við nú einhverja skrítna og skemmtilega ávexti, sem kallast granadin eða eitthvað slíkt, maður opnar þá bara á endanum og sýgur innihaldið úr, sætan slímkenndan vökva með alveg fullt af fræjum í. Fræin meltast reyndar ekki vel, eins og seinna kom á daginn, og það borgar sig nú sjálfsagt ekki að borða meira en svona fimm á dag...

 

Við gistum svo í frekar skuggalegu herbergi með ennþá skuggalegri sturtuklefa, mikið var ég fegin þegar ég komst þaðan út. En þetta var samt fín reynsla, því eftir þetta fannst mér öll herbergi alveg svakalega fín.

 

 

 

Eftir tveggja tíma frábæra rútuferð standandi í rosalega fullri rútu. Komum við að landamærum Belize þar sem landamæravörðurinn skrifaði stoltur upphafstafina sína í íslenskt vegabréf og óskaði mér góðrar ferðar. Og áfram var haldið í rútu og svo með bát í hellirigningu og roki út til suðrænnar eyju, Caye Caulker, þar sem við stigum á land rennandi blautar í myrkri. Fundum ferðafélagana sem höfðu horfið sjónum í Tikal, og gistum í fallega trékofanum hérna við hliðina, svona fimm metra frá sjónum eða svo.

 

 

Daginn eftir fór ég svo aldeilis að snorkla, fór med bát langt út á sjó stökk út í með rör í munninum og dáðist að fiskunum fyrir neðan. Gamanið stód nú stutt því að ég flýt ekki vel og fékk því fullt af vatni í munninn og sundgleraugun ná yfir nefið þannig að ekkert gekk að anda með því. Ég buslaði mér nú upp og náði blessuðu rörinu úr munninum en varð nú víst svo mikið um að ég sparkaði í hákarl sem leist nú sossum ekki betur á mig en svo að hann leit til mín en synti svo bara áfram. En ég komst nú svo aðeins betur upp á lagið með þetta rör og útsynið þarna niðri i sjónum var frábært, litirnir á fiskunum og kóröllunum voru alveg ótrúlegir.

 

 

 

 

 

 

En það þýddi náttúrulega ekkert að staldra lengi við því að ég átti eftir að sjá svo margt. Ég stökk því á bát aftur til meginlandsins um hádegið daginn eftir. Þau sem ætluðu með mér misstu reyndar af bátnum þannig að ég hélt bara sem leið lá í bæinn þar sem við ætluðum að gista, San Ignacio. Skildi bara eftir miða handa þeim hinum á rútustöðinni og hélt af stað til að skoða fleiri Maya minjar. Þær voru nú reyndar litlar miðað við það sem ég sá í Tikal en gaman að skoða þær samt.

 

 

 

Svo fann ég nú lítinn róluvöll þar sem krakkar voru að leika sér aðeins á leiðinni heim úr skólanum. Ég fylgdist með þeim í dáldinn tíma, og strákunum fannst sko ekkert mál að brosa framan í mig og klifra upp þegar ég spurði hvort ég fengi að taka mynd af þeim.

 

 

Ég fann þau Mary og Aaron seinni part dagsins og við héldum áfram til Guatemala daginn eftir. Eftir soldið spjall og útskýringar (á spænsku), á því hvar í heiminum Ísland væri, við landamæraverðina sem fannst nú heldur ótrúlegt að það væri til eitthvað land sem héti Ísland, slepptu þeir mér nú í gegn heldur vantrúaði samt. Og við héldum áleiðis til Guatemala borgar, enda ferðin farin að styttast í annan endann.

 

 

 

 

Við áttum svo góðan dag í Guatemala borg, á markaði þar sem mikið var prúttað og gekk misvel en heldur betur eftir því sem á daginn leið og peningunum í veskinu fækkaði.

 

 

En allt tekur nú enda um síðir og eftir átta góða daga í Guatemala og Belize beið flugvélin eftir því að færa okkur aftur til Texas.

 

Það var nú nú með dálitlum söknuði sem ég kvaddi Guatemala, þennan heim sem er svo ólíkur Íslandi eða Texas. En ég sagði bara við sjálfa mig að ég myndi bara koma aftur seinna.

 

 

 

 

Jóna Finndís