Barrancas del Cobre - Kopargljúfur
 


 
 

Að kvöldi dags miðvikudaginn 21. júní 2000, lögðum við af stað þrjár stelpur í langa keyrslu frá Austin til Kopargljúfranna í Mexíkó. Þetta tók nú ansi

langan tíma að komast á áfangastað eða 16 klukkutíma í bílnum mínum, henni Skottu sem fór yfir 100.000 mílna markið á leiðinni.
Fyrsta daginn var nú ekki margt um að vera, bara keyrsla í vesturátt þónokkuð lengi eða þar til við vorum orðnar þreyttar og farnar að nálgast
landamærin. Við tjölduðum í bænum Marfa þar sem undarleg ljós ku hlaupa um himininn stundum þegar dimmt er, einhver draugagangur semsagt. En okkur tókst nú ekki að koma auga á neitt skrítið enda vorum við fljótar að sofna.

 

Daginn eftir var svo haldið sem leið lá, brunað yfir landamærin, í gegnum borgina Chihuahua og beint upp til

fjalla í smábæinn Creel sem er í um 2000 metra hæð.
Eftir miklar vangaveltur og leit að korti í bænum ákáðum við að skella okkur í bílferð að gljúfri rétt hjá bænum þar sem heitt vatn rennur barasta út úr fjallshlíðinni.
Það glittir í gjúfrið á bak við þær Teri og Mary á myndinni, það var nú ekki mikið mál að hlaupa þar niður, skella sér í sundfötin og hoppa í heita vatnið. Vatnið var nefnilega bara ljómandi volgt og rann út úr fjallinu hér og þar.

 
 
 
 
 


 
 

Leiðin upp úr gljúfrinu virtist nú heldur lengri þegar allt var upp í móti en við sluppum upp rétt áður en byrjaði að rigna. Það virtist nefnilega rigna eiginlega á hverjum degi, en það byrjaði aldrei fyrr en eftir klukkan 3 eða svo. En við fórum þá bara í regnjakkana og héldum áfram í skoðunarferðinni um indjánabyggðir, indjánarnir á svæðinu Tarahumaras eru ekkert hrifinir af myndatökum, en voru alveg til í að selja okkur litlar körfur og annað smálegt.
 
 
 
 
 
 
 
 

Daginn eftir héldum við svo áfram á henni Skottu minni til bæjarins Divisadero sem er rétt á brún aðal gljúfursins og þar var nú eins gott að passa sig á að detta ekki niður, hamrarnir voru alveg svakalega háir eins og sést á myndinni efst á síðunni.

Frá Divisadero héldum við svo áfram með lest um þessi svakalegu gjúfur, alla leiðina að pínulitlum bæ, Santa Barabara. Við héldum að þessi litli fátæki  bær væri Témoris, bærinn þar sem við ætluðum að gista en eltum sem betur fer allt hitt fólkið bak við lestarstöðina þar sem við hoppuðum upp í gamla rútu bara eins og allir hinir.

Við vissum sossum ekki alveg hvert rútan tæki okkur, en svo fór hún af stað beint upp upp upp fjallshlíðina. Bílinn skrölti þarna áfram yfirleitt alveg út á brún. Ég gat nú ekki annað en spögulerað í því hve margir hefðu húrrað fram af þessari brún en ákvað bara að halda mér fast.

Við komumst á leiðarenda en vorum þá líka sammála að morgundagurinn færi í gönguferð niður fjallið. Þá var bara eins gott að passa sig á vörubílunum hlöðunum timbri sem komu á eftir manni niður. Allir buðu okkur auðvitað far en það virkaði nú öruggara að labba en sitja upp á hlassinu.
 
 
 
 
 
 
 
 

Leiðin niður var rosalega falleg og ljómandi gott að þurfa ekki að labba upp aftur heldur bara að setjast og bíða eftir lestinni sem flutti okkur aftur til baka til Divisadero.
 

Hún Skotta beið þar eftir okkur og við lögðum af stað heim á leið. Við keyrðum til Chihuahua þá um kvöldið og fundum okkur náttstað. Við fórum svo á fætur fyrir sólarupprás og keyrðum áfram í norðurátt til landamæranna. Komumst yfir landamærin klakklaust og keyrðum áfram. Texas er nú stundum óþarflega stórt fylki, allavega þegar maður þarf að keyra yfir það þvert.
 
 
 
 


 
 
 
 
 

Þetta var semsagt alveg ljómandi góð ferð, miðjan var bara soldið stutt (byrjunin og endirinn í bílnum var meira en nógu langur). En það þýðir bara að ég verð að skreppa til Mexíkó aftur einhvern tíma seinna...

                                                    Jóna Finndís